Gjafabréf Icelandair

Ágætu félagsmenn.

Minni á rétt ykkar til kaupa á gjafabréfum, sjá eftirfarandi:
Gjafabréf  Icelandair að andvirði 25.000 kr.  Verð til félagsmanna 18.000 kr.
–  Hver félagsmaður á rétt á kaupum á 4 gjafabréfum á ári.

Ólafur Ingibersson, gjaldkeri TFÍ.

Málfríður Freyja kvödd eftir 32 ára starf

malla-kvc3b6dd-eftir-32-c3a1ra-starf

Fimmtudaginn 13. desember var Málfríður Freyja Arnórsdóttir kvödd með kaffisamsæti í Tollhúsinu eftir rúm 32 ár í starfi sem tollvörður. Málfríður gegndi hinum ýmsu störfum innan tollgæslunnar, lengst af á Keflavíkurflugvelli og nú síðast sem tollsérfræðingur í endurskoðunardeild Tollstjóra Tollhúsinu við Tryggvagötu. Af þessu tilefni afhenti Guðbjörn Guðbjörnsson, deildarstjóri endurskoðunardeildar, henni gjöf sem þakklætisvott fyrir störf hennar.

Afmæliskaffi – TFÍ 83 ára.

Kæru tollverðir.

Laugardaginn 8. desember nk. verður Tollvarðafélags Íslands 83 ára.

Af því tilefni býður félagið fyrverandi og núverandi tollvörðum til kaffisamsætis í Tollminjasafninu mánudaginn 10. desember frá kl. 14:00 – 16:00.

Í tilefni dagsins þykir það við hæfi að klæðast hátíðarbúning.

Þeir sem hyggjast þiggja boðið er bent á að hafa samráð við yfirmann sinn. Vonumst til að sjá sem flesta.

F. h. Tollvarðafélags Íslands,
Birna Friðfinnsdóttir, formaður

Nýir trúnaðarmenn

Nýir trúnaðarmenn félagsins, sbr. tölvupóstur til tollvarða 9. okt. sl., eru Guðlaugur Hávarðarson á Keflavíkurflugvelli og Jóhanna Á. Evensen og Steinarr Magnússon fyrir Reykjavík og landsbyggðina.

Fyrir er áfram Sigurvin B. Guðfinnsson á Keflavíkurflugvelli.

Hlutverk trúnaðarmanna, skv. 9. gr. laga nr. 80/1938, er m.a. að gæta þess að gerðir samningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna.

 

Vetrarleiga Flúðir 2017/2018

Ágætu félagsmenn

Höfum hafið skráningu á helgarleigur í Höllinni okkar og um að gera að tryggja sér helgi fyrr en seinna. Vakin er athygli á að í vetur verður helgarleigan frá föstudegi til sunnudags en óbreytt verð 15.000 kr. Hver aukanótt sem bætt er fyrir framan eða aftan er svo seld á 3.000 kr. Innifalið í verði nú er þráðlaust net auk þrifa á bústað að lokinni dvöl.

F.h. orlofsnefndar
Ólafur Ingibersson

Orðsending vegna breytinga á lífeyriskerfi ríkisstarfsmanna.

Eins og þið hafið væntanlega orðið vör við þá samþykktu nýlega  BSRB, BHM og KÍ samkomulag um breytt lífeyrissjóðskerfi ríkisstarfsmanna.

Samkomulagið hafði áður verið samþykkt á formannaráðsfundi BSRB og síðar undirritaði formaður BSRB samkomulagið ásamt ofangreindum heildarsamtökum. Ekki var einhugur innan formannaráðs BSRB um samkomulagið og lögðu LL (Landssamband lögreglumanna), SLFÍ (Sjúkraliðafélag Íslands), LSS (Landssamband slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna) og TFÍ (Tollvarðafélag Íslands) fram bókanir þar sem undirritun samkomulagsins var mótmælt.

Að mati ofangreindra félaga er ekki nægjanlega tryggt í samkomulaginu að launamunur milli opinbera- og einkageirans sé brúaður en það á að gerast á 6 – 10 árum. Einnig er því mótmælt að lífeyristöku stétta sem hafa sérstöðu hvað varðar lífeyristöku sé breytt úr 65 árum í 67. Með sérstöðu hvað varðar lífeyristöku er átt við stórt hlutfall vaktavinnufólks.

Félögin hafa tekið saman höndum og sent ályktanir til fjölmiðla og þingmanna (sjá meðf. skjöl).

Lög um breytingu á lífeyrismálum eru til umræðu á alþingi þegar þessi orð eru rituð. Á morgun kl. 15 hafa félögin boðað þingmenn til fundar í húsnæði Sjúkraliðafélagsins til þess að ræða þessi mál.

Það ber að nefna að TFÍ setur sig ekki upp á móti því að í landinu verði komið upp sama lífeyriskerfi fyrir allt launafólk en ofangreind atriði þurfa að liggja fyrir áður en það er gert þ.e. launamunur og lífeyristökualdur.

Formaður BSRB Elín Björg Jónsdóttir er ekki sammála málflutningi okkar og telur að ekki hafi verið mögulegt að ná lengra með þessu samkomulagi. (sjá meðf. bréf formanns BSRB)

Bestu kveðjur

Ársæll Ársælsson formaður TFÍ

alyktun-a-thingmenn

alyktun-lss-og-tfi-til-fjolmidla-um-lifeyrismal

bref-formanns-bsrb-um-samkomulag-um-lifeyrismalin

Orðsending vegna aðalfundar

Meðfylgjandi er dagskrá aðalfundar TFÍ sem haldinn verður í húsnæði BSRB Grettisgötu 18, 11. mars kl. 18:00.

Milli kl. 19:00 og 20:00 fjallar formaður BSRB Elín Björg Jónsdóttir um SALEK auk þess sem hún svarar fyrirspurnum um BSRB.

Ársskýrslan verður aðgengileg öðru hvoru megin við helgina á læstu svæði vefsíðu okkar

Vonast til að sjá ykkur sem flest

Ársæll Ársælsson formaður TFÍ

Tolltíðindi

Kæru félagsmenn,

Eins og allir vita fagnaði Tollvarðafélag Íslands 80 ára afmæli sínu þann 8. desember síðastliðinn. Í tilefni afmælisins var ákveðið að gefa út afmælisrit Tolltíðinda sem fylgir með í neðanverðum hlekk.

Tolltíðindi 2015

Með afmæliskveðju
Stjórn TFÍ

Leiðrétting launa félagsmanna TFÍ í samræmi við gerða kjarasamninga

Samninganefnd ríkisins (SNR) hefur tilkynnt Tollvarðafélagi Íslands (TFÍ) að það muni ekki efna loforð sín um að afturvirkar leiðréttingar samkvæmt samningum komi til útborgunar 1. desember. Þrátt fyrir að hafa lofað þessu fyrir undirritun samnings kemur nú fram rétt fyrir launakeyrslu að þetta gangi ekki upp. SNR beið fram á síðustu stundu eða í 14 daga með að tilkynna TFÍ þetta. Í millitíðinni hafði félagið kynnt félagsmönnum samninginn og haft stutta kosningu til að vera innan tímaramma sem SNR setti til að leiðrétting kæmi inn í launagreiðslu 1. desember.

Viðbrögð tollvarða við þessum breytingum eru mjög hörð, en margir höfðu reiknað með þessum leiðréttingum fyrir hátíðarnar. Tilraunir TFÍ til þess að fá þessu breytt hafa engan árangur borið og svörin á þann hátt að því miður sé þetta staðreyndin.

TFÍ lítur svo á að hér sé algert viljaleysi til að standa við gefin loforð.