Lög Tollvarðafélags Íslands

Á aðalfundi TFÍ þann 8. mars 2019 voru gerðar lagabreytingar á 13. gr. um störf aðalfundar, á 15. gr. um framkvæmd kosninga og á 25. gr. um kjörtímabil stjórnarmanna.

1. gr.
Félagið heitir Tollvarðafélag Íslands, skammstafað TFÍ. Félagssvæðið er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins er að sameina íslenska tollverði í hagsmunabaráttu þeirra varðandi launakjör, starfshætti og annan aðbúnað í sambandi við tollgæslustörf. Ennfremur vill félagið stuðla að aukinni menningu tollvarða og öðru því, sem til velferðar horfir.

3. gr.
Félagsmenn geta þeir einir orðið, sem eru fastráðnir eða skipaðir tollverðir og vinna tollgæslustörf, svo og þeir sem eru ráðnir tollverðir og hafa lokið fyrri önn Tollskólans og/eða starfað samfellt í 6 mánuði.  Hverfi félagsmaður tímabundið frá tollgæslustörfum , má hann ekki gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið meðan fjarvera varir.  Eftir árs fjarveru frá tollgæslustörfum fellur hann út af félagskrá.  Vangreiðslur á félagsgjöldum í eitt ár varða brottrekstri úr félaginu.

4. gr.
Allir félagsmenn eru skyldir til að hlýða lögum félagins og fundarsamþykktum og uppfylla samninga, sem það hefur gert við ríkið og aðra. Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum þessum, eða á annan hátt hefur unnið félaginu tjón, skal stjórn félagsins taka málið til meðferðar, kynna sér öll málsvik, og leggja málið síðan fyrir lögmætan félagsfund, sem tekur endanlegar ákvarðanir. Sakir við félagið varða brottrekstri um óákveðin tíma, og fyrir fullt og allt ef sakir eru miklar.

 5. gr.
Heiðursfélaga má kjósa á aðalfundi, þó því aðeins að stjórn félagsins flytji um það tillögu. Heiðursfélagi hefur málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins. Einnig hefur hann atkvæðisrétt jafn lengi og hann gegnir störfum. Heiðursmerki má aðeins veita á aðalfundi, þó aðeins af stjórn félagsins, og eftir að orðunefnd hefur gert um það tillögu til stjórnar. Stjórnin setur nánari reglur um veitingu heiðursmerkja.

 6. gr.
Stjórn félagsins skipa fimm menn:
• Formaður,
• varaformaður
• ritari,
• féhirðir
• meðstjórnandi.
Varastjórn skipa tveir menn.
Hlutfallið í stjórninni sé þannig, að tveir séu úr Reykjavík, tveir utan Reykjavíkur og formaður sé óháður starfsstöð. Í varastjórn þannig að einn sé úr Reykjavík og einn utan Reykjavíkur.

7. gr.
Stjórn félagsins annast allan rekstur þess milli aðalfunda, þ.á m. ráðningu starfsmanna félagsins og gerð kjarasamninga, sem lagðir skulu fram á almennum félagsfundi. Sama gildir um skipan í starfsnefndir, nema kveðið sé á um annað í lögum þessum.

 8. gr.
Formaður boðar til funda og stjórnar þeim. Þó skal formanni heimilt að skipa fundarstjóra, telji hann ástæðu til. Tíu félagsmenn eða fleiri geta krafist fundar á þann hátt, að formanni er send skrifleg áskorun um slíkt ásamt upplýsingum um tilefni fundarins og væntanlegum tillögum, með minnst viku fyrirvara. Er þá formanni skylt að boða til fundarins.
Formaður skal hafa eftirlit með, að aðrir stjórnarmenn ræki skyldur sínar. Einnig ber honum að sjá um, að nefndir á vegum félagsins hefji störf og skili verkefnum. Forfallist formaður skal varaformaður taka við störfum formanns og gegna þeim út kjörtímabilið, ef á þarf að halda.
Forfallist bæði formaður og varaformaður, ber stjórninni að boða til félagsfundar þegar í stað og þar skal kjósa formann og einn mann í
stjórn.

9. gr.
Ritari heldur gerðarbók félagsins og færir í hana allar gerðir þess og lagabreytingar, og niðurstöður reikninga. Hann skal annast bréfaskriftir félagsins í samráði við formann.

10. gr.
Féhirðir innheimtir ársgjöld og aðrar tekjur félagsins. Hann hefur á hendi fjárhald og bókfærslu, sem að því lýtur, eftir nánara fyrirlagi stjórnarinnar. Sjóði félagsins skal hann geyma á vöxtum í banka, eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar. Stjórnin öll ber ábyrgð á félagssjóði. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

11. gr.
Stjórnarfundi og almenna félagsfundi skal halda, þegar ástæða þykir til. Allir fundir eru löglegir, ef til þeirra er boðað á eftirfarandi hátt:
Almennir félagsfundi með tveggja sólarhringa fyrirvara og aðalfund með viku fyrirvara. Þó hefur formaður heimild til að boða almenna félagsfundi með styttri fyrirvara, ef nauðsyn krefur. Til almennra félagsfunda skal boða með auglýsingu á vinnustöðum, eða á annan fullnægjandi hátt. Fundir skulu fara fram eftir lögum og fundarsköpum félagsins.

12. gr.
Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal haldinn eigi síðar en 15. mars ár hvert. Til aðalfundar skal boða bréflega samkvæmt 11. gr. Skýrsla stjórnar og uppgjör ársreikninga liggi frammi félagsmönnum til sýnis a.m.k. 5 dögum fyrir aðalfund.

13. gr.
Störf aðalfundar eru þessi:
A: Stjórn félagsins skal gera grein fyrir skýrslu um störf sín á liðnu starfsári ásamt endurskoðuðum reikningum. Eftir almennar umræður um skýrsluna og reikninga, skulu þau borin undir atkvæði til samþykktar eða úrskurðar.
B: Formaður eða fundarstjóri lýsi úrslitum kosninga er fram hafa farið undir stjórn kjörstjórnar, svo sem kjöri stjórnarmanna, trúnaðarmanna og kosningu fulltrúa á þing B.S.R.B. það árið, sem kjörtímabili þeirra lýkur. Nýkjörin stjórn tekur við stjórnarstörfum á aðalfundi að kjöri loknu.
C: Lagabreytingar teknar til umræðu og afgreiðslu, ef um þær er að ræða.
D: Ákveða skal árstillag félagsmanna fyrir eitt ár í senn.
E: Kosning þriggja manna kjörstjórnar og tveggja til vara til tveggja ára, það árið sem hefur oddatölu í ártali. Kjörstjórnarmenn skulu ekki eiga sæti í aðalstjórn. Kosning kjörstjórnar fari fram á aðalfundi og með beinni kosningu, og ræður einfaldur meirihluti úrslitum.
F: Kjósa skal þriggja manna laganefnd árlega.
G: Önnur mál, svo sem á öðrum fundum félagsins.

 14. gr.
Stjórn félagsins skal gera kjörskrá, og miðast hún við næstu áramót fyrir kosningar. Hún skal vera tilbúin fyrir 10. janúar, og til sýnis ef óskað er. Á kjörskrá skulu vera nöfn allra þeirra félagsmanna, sem hafa kosningarétt og kjörgengi ásamt heimilisfangi og kennitölu hvers og eins. Allir félagsmenn hafa kosningarrétt og kjörgengi séu þeir skuldlausir við félagið og hafi þeir ekki brotið af sér við það á annan hátt.  Allar kærur út af kjörskrá skal kjörstjórn úrskurða.

15. gr.
Á því ári sem hefur oddatölu í ártali skal kjósa formann, tvo stjórnarmenn og einn varastjórnarmann. Á því ári er hefur jafna tölu í ártali skal kjósa tvo stjórnarmenn og einn varastjórnarmann, þá skal einnig kjósa skoðunarmenn reikninga félagsins. 
Á hverju ári skal kjósa tvo trúnaðarmenn, einn úr Reykjavík og einn utan Reykjavíkur. Fulltrúar á þing B.S.R.B. skulu kosnir á þinghaldsári B.S.R.B., sbr. 25 .gr. Gefi stjórnarmaður kost á sér í stöðu formanns, skal varastjórnarmaður taka sæti hans þar til úrslit kosninga liggur fyrir.
Kosning fari fram áður en aðalfundur er haldinn og skulu atkvæði send í lokuðu umslagi til kjörstjórnar . Jafnóðum og atkvæði berast, skal skrásetja þau og setja í þar til gerðan kjörkassa. Kjörkassi skal læstur og innsiglaður. Formaður kjörstjórnar skal geyma lykilinn, en annar kjörstjórnarmaður innisiglið. Kjörkassi skal þannig gerður, að ekki sé unnt að opna hann nema vinna á honum skemmdir, meðan hann er læstur og innsiglaður. Kjörkassinn skal vera í vörslu kjörstjórnar, sem ábyrgist að óviðkomandi hafi ekki aðgang að honum meðan á atkvæðagreiðslu stendur. Auk þess sem atkvæðagreiðsla fer bréflega fram, er kjörstjórn heimilt, þar sem því verður við komið, að láta setja atkvæði beint í kjörkassa, og fer kjör þá fram á venjulegan hátt í kjörklefa eða herbergi, þar sem enginn annar er staddur en sá, er atkvæði greiðir. Ef út af ákvæðum þessarar greinar um tilhögun kosninga er brugðið, er kosning ógild.                          Framboð standa þó óbreytt, þótt endurtaka þurfi kosninguna, nema þyngri viðurlög séu í öðrum lögum.
Heimilt er að viðhafa rafræna atkvæðagreiðslu. Rafræn atkvæðagreiðsla skal framkvæmd þannig að þeim er kosningarétt eiga er sendur aðgangslykill að rafrænum kjörseðli með tölvupósti.
Kjörstjórn skal leita til sérfróðra aðila um framkvæmd rafrænna kosninga. Framkvæmd skal hagað þannig að öllum tollvörðum sé gert kleift að nýta kosningarétt sinn og kosning opin í allt að fimm daga.

 16. gr.
Kjörstjórn skal halda gerðabók um allt er varðar kosningarnar hverju sinni. Kjörstjórn skiptir með sér verkum, sem eru: Formaður, ritari og meðstjórnandi. Allar kærur út af kjörskrá eða kosningu skal kjörstjórn úrskurða og leggja fyrir aðalfund. Skulu þær afgreiddar fyrir aðalfund. Kærufrestur rennur út tveimur sólarhringum fyrir aðalfund.                                                     Kosning þessi er ekki listakosning eða háð hlutfallareikningi við úrslit, heldur einstaklingskosning.

17. gr.
Það starfsárið, sem kosning skal fara fram, ber kjörstjórn að vekja athygli félagsmanna á væntanlegri kosningu, framboðsfresti og öðru, sem máli skiptir varðandi kosninguna, eigi síðar en 15. desember. Kjörstjórn skal sjá um allan frágang og sendingu kjörgagna til félagsmanna.
Þegar um bréflega kosningu er að ræða, skulu tvö umslög fylgja atkvæðaseðli. Þegar kjósandi hefur greitt atkvæði, skal hann láta atkvæðaseðilinn í umslag, sem merkt er orðinu „ATKVÆÐI“, en þessu umslagi skal hann loka og láta í annað umslag sem er merkt „STJÓRNARKOSNING“, og ber utanáskrift félagsins. Á því umslagi skal vera ákveðinn reitur, þar sem kjósandi skrifar nafn sitt og heimilisfang. Atkvæði skulu send í pósti, eða þeim komið á annan öruggan hátt til kjörstjórnar.

 18. gr.
Atkvæðagreiðslu skal lokið eigi síðar en 48 stundum fyrir aðalfund. Talningu atkvæða má fyrst byrja 24 stundum síðar og skal henni lokið fyrir aðalfund. Kjörstjórn annast talningu og er frambjóðendum eða fulltrúum þeirra, einum frá hverjum, heimilt að vera viðstaddir.
Frambjóðandi skal senda kjörstjórn um það skriflegt erindi hver fulltrúi hans er við talningu atkvæða komi hann því ekki við sjálfur að vera viðstaddur. Að talningu lokinni skal kjörstjórn birta úrslit kosninganna og jafnframt skulu úrslit kunngerð á aðalfundi.

19. gr.
Ekki eru aðrir í kjöri en á kjörseðli eru, enda komi þar fram allar lögmætar uppástungur. Nöfnum frambjóðenda skal raða í stafrófsröð. Ekki getur sami maður verið í framboði nema á einum stað við kosningu formanns og annarra stjórnarmanna. Ekki má greiða fleiri mönnum atkvæði en kjósa skal, en greiða má færri mönnum atkvæði.

20. gr.
Fráfarandi formaður og aðrir stjórnarmenn eru alltaf í kjöri, nema þeir biðjist skriflega undan því til kjörstjórnar. Ákveði fráfarandi formaður eða aðrir stjórnarmenn að gefa ekki kost á sér til endurkjörs, skulu þeir tilkynna það til kjörstjórnar fyrir 15. janúar (*). Kjörstjórn getur þó fallist á afsögn komi hún fram síðar, ef sérstakar ástæður liggja til, þó ekki síðar en 31. janúar (*). Skal þá kjörstjórn ávallt auglýsa eftir uppástungum um menn í stjórn og varastjórn, svo og í stöður annarra trúnaðarmanna er kjósa skal. Frestur til að skila uppástungum til kjörstjórnar skal vera til 31. janúar (*). Komi ekki fram uppástungur um fleiri menn en kjósa á eru þeir sjálfkjörnir.ppástungur skulu vera skriflegar og með samþykki viðkomandi.

21. gr.
Á atkvæðaseðli skal kosning fara fram þannig: Formaður er kosinn sérstaklega. Aðrir stjórnarmenn svo og varastjórnarmenn skulu kosnir í samráði við ákvæði 15. gr. lagaanna. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti en því sem að framan er sagt í lögum þessum. Einnig skal stjórnin skipta með sér verkum, þegar svo stendur á, sem ákveðið er í 4. mgr. 8. greinar.

 22. gr.
Félagsmenn skulu setja kross á kjörseðil fyrir framan nafn þess sem þeir kjósa. Öll skrif eða auðkenni á atkvæðaseðli ógilda hann.

23. gr.
Stjórn félagsins skal sjá um að ávallt sé til nægjanlegt magn prentaðra atkvæðaseðla.

24. gr.
Skemmist atkvæðaseðill í höndum kjósanda, eða ógildist fyrir mistök hans, skal hann eiga kost á nýjum seðli, ef hann skilar kjörstjórn hinum fyrri. Kjörstjórn skal skrá slíkt, og eyðileggja þá seðla sem skilað er, með öðrum atkvæðaseðlum að kosningu lokinni. Kjörstjórn skal brenna eða eyðileggja á annan fullnægjandi hátt alla atkvæðaseðla, mánuði eftir aðalfund, hafi ágreiningur ekki risið. Annars skulu allir seðlar geymdir uns ágreiningur er úr sögunni.

25. gr.
Kjörtímabil stjórnarmanna og kjörstjórnar er tvö ár. Kjörtímabil fulltrúa á þing B.S.R.B. fari eftir lögum bandalagsins.
Þurfi stjórnarmaður, varastjórnarmaður eða trúnaðarmaður að segja sæti sínu lausu áður en kjörtímabili hans lýkur skal hann tilkynna það til stjórnar félagsins og tekur afsögnin gildi um leið og hún hefur verið afgreidd á stjórnarfundi. Tekur þá varamaður sæti stjórnarmanns en ef um varamann er að ræða, eða ef engir varamenn eru starfandi í stjórn, er kjörstjórn heimilt að auglýsa sætið laust og efni til kosninga, eða stjórn félagsins boði til félagsfundar til þess að afgreiða málið. Sama á við um laus sæti trúnaðarmanna. Sá sem er kjörinn í laust sæti á miðju tímabili er kjörinn til sama tíma og fráfarandi stjórnar- eða trúnaðarmaður var áður kosinn.

26. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Laganefnd fjalli um breytingatillögur í samráði við stjórn félagsins. Tillögur einstakra félagsmanna um breytingar á lögum skulu hafa borist laganefnd eigi síðar en 15. desember ár hvert. Niðurstöður laganefndar og stjórnar skulu leggjast fyrir aðalfund, bornar þar upp hver fyrir sig og samþykktar eða felldar. 
Lagabreytingar teljast ekki samþykktar nema 2/3  atkvæða á aðalfundi samþykki hana

http://www.tollverdir.is/wp-content/uploads/2019/11/Lög-TFÍ-samþykkt-8.-mars-2019.pdf